25 mars 2020

25. mars 2020 - Heimavinnudagur þrjú

Nú er þriðji dagur í heimavinnu. Ég hef vanið mig á að halda rútínu, klæði mig á morgnana og set upp andlitið eins og ég væri að mæta til vinnu. Hér er engin náttfatavinnustofa. Miða við að vera sest við vinnu um níuleytið. Heldur erfiðlega gengur samt að halda athyglinni við vinnuna allan tímann og það er smávægilegt eirðarleysi að hrjá mig þessa dagana.

Það sló mig í morgun að heyra í sjúkrabílum á Reykjanesbrautinni og það nokkrum sem gaf til kynna að eitthvað meira en smávægilegt slys hefði orðið. Síðan var aftur sirenuvæl um hálf tíu, ég var að vona að við minni umferð myndu slysum fækka. Við fyrstu fréttir virðast ekki um alvarleg slys hafa verið um að ræða. En víst er að þetta minnkar ekki álagið á heilbrigðiskerfið sem þegar er mjög mikið.

Á síðasta ári skipulögðum við þrjár mæður og þrjár dætur, bekkjasystur í 10. bekk útskriftarferð stelpnanna í vor, og átti það ekki að vera ferð af lakara tagi. Annars vegar var ætlunin að fljúga til Búdapest 28. maí og fara á tónleika Harry Styles þann 31. maí, fljúga síðan yfir til Prag 1. júní og á tónleika þar með 5 seconds of summer (5SOS) sama kvöld, og koma heim til Íslands þann 4. júní. Í morgun komu fréttir um að búið væri að fresta Harry Styles tónleikunum fram til 22. febrúar 2021, en engar upplýsingar komnar um tónleikana í Prag, en mjög líklegt er að þeim verði frestað líka ef ástandið í heiminum er ennþá óöruggt á þeim tíma. Ef þeim tónleikum verður frestað líka, þá yrði það harla ólíklegt að svo vel hitti á að þeir yrðu á svipuðum tíma og Harry Styles tónleikarnir þannig að hægt væri að gera úr því eina ferð. Við höfum ekki ennþá gefið ferðina upp á bátinn að sinni, sérstaklega ekki ef að tónleikarnir í Prag haldast á réttum tíma, við munum þá bara njóta þess að skoða Búdapest og fljúga síðan yfir til Prag 1. júní eins og plön eru um.

Síðustu tölur af Corona eru þær að í dag hafa 737 smit verið staðfest, yfir 9 þúsund manns eru í sótthví, 56 manns er batnað og tveir eru látnir. Í fyrrakvöld lést 71 árs kona og að öllum líkindum dó ástralskur ferðamaður á fertugsaldri úr veirunni á heilbrigðisstofnuninni á Húsavík fyrir viku þó að ekki sé endanlega búið að skera úr um endanleg dánarorsök. Hert samkomubann er í gildi og mjög margir virða það og halda sig sem mest heima, en svo virðist sem aðrir eigi erfiðara með slíkt. Mér finnst umferðin hér um götuna í dag vera mun meiri en hún var á mánudag og í gær, hvað sem veldur. Margir verslunarrekendur og hafa valið að loka verslunum sínum en halda uppi öflugri netverslun í staðinn. Eins hafa mörg veitingahús lokað, enda erfitt að halda uppi veitingastöðum þegar einungis er heimilt að vera með 20 manns inni í einu, og það með talið starfsfólki á staðnum. Þetta verður vonandi til þess að okkur gangi betur að vinna á veirunni, færri veikist og vel takist til að vernda viðkvæmasta hópinn svo við þurfum ekki að sjá á eftir fleiri mannslífum í klær hennar.

24 mars 2020

Þetta er skelfilegur faraldur, Haraldur

Það er vel við hæfi að skrifa nýja færslu á þeim tíma sem ég ætti að vera ásamt bóndanum stödd í Berlín en er heimavið sem betur fer miðað við aðstæður, en síðasta færsla á undan var einmitt um síðustu Berlínarferð, 2010. Við ætluðum sem sagt að fljúga til Berlínar á föstudaginn og koma heim á morgun, en frestuðum ferðinni fram í ágúst. Það þýðir að vísu að öllum líkindum hitti ég ekki Sigrúnu vinkonu mína og grunnskólasystur eins og planað var, og ég hlakkaði til.

Mig langar til að skrifa aðeins um þessa tíma við erum að upplifa í dag í færslu sem ég mun skoða eftir nokkur ár til að minnast þessa tíma, þessar aðstæður sem við hefðum ekki getað ímyndað okkur fyrir örfáum mánuðum að við myndum standa frammi fyrir og að hefðu jafn lamandi áhrif á samfélagið og raun ber vitni.


Aðstæðurnar eins og þær eru í dag

Þessir ,,fordæmalausu" tímar sem við upplifum núna minnir okkur á hversu það líf sem við teljum vera í svo föstum skorðum verður í rauninni veikbyggt þegar til kastanna kemur. Að ósýnileg lífvera, eða veira sem sprettur upp á matvörumarkaði í Kína (eða svo er okkur sagt) um miðjan nóvember á síðasta ári, geti verið svo öflug að hún leggur heilu samfélögin á hliðina og hafa nú þegar um 335 þúsund manns veikst og hátt í 15 þúsund manns látist út um allan heim. Veiran sem kennd er við bjór (sem er reyndar smá grín) Corona, eða Covid19, skilur eftir sig lömuð þjóðfélög nánast alls staðar. Það er skelfilegt að sjá þessar staðreyndir svona lifandi á þessu korti (linkur opnast í nýjum flipa) sem er uppfært daglega. Fyrsta tilfellið hér á landi greindist í lok febrúar, en í dag eru um 588 manns sem hafa veikst hér og 12 sem liggja inni á spítala, en sem betur hafa ekki borist fréttir af því að neinn hafi látist, og ég vona svo innilega að svo haldist áfram.

Staðan hér á landi er sú að samkomubann var sett á þann 16. mars, sem fól meðal annars í sér að allir framhalds- og háskólar eru lokaðir, kennsla fer fram eftir því sem mögulegt er í gegn um fjarkennslu, og námsmat fer fram með nýjum hætti. Grunnskólar eru með skertri starfssemi, nemendum er kennt í minni hópum og kennslutíminn er takmarkaður. Unglingurinn á mínu heimili er sem dæmi einungis eina klukkustund á dag í skólanum, en meiri áhersla er lögð á heimanám í staðinn. Þetta er frekar viðkvæmur tími þar sem næsta haust tekur framhaldsskólinn við og því hættara við að undirbúningurinn fyrir hann verði erfiðari. Í upphafi var einnig lagt bann við samkomum þar sem kæmu saman fleiri en 100 manns, og gæta varð að því að ekki væri minna en 2ja metra bil milli fólks. Í framhaldinu hafa tónleikar, kirkjuathafnir og aðrar fjölmennar samkomur lagst meira og minna af. Um miðnætti í kvöld herðast reglurnar enn meira, þá miðast samkomubannið við 20 manns, rekstur sem byggist á nálægð við viðskiptavini er bannaður, svo sem nudd, hárgreiðslu- og snyrtistofur, tannlækningar, nema í bráðatilvikum. Sundstöðum og líkamsræktarstöðvum hefur verið lokað, og verslunum nema apótekum og matvörubúðum er einungis hemilt að vera með alls 20 manns inni í einu og hafa einhverjar verslanir brugðið á það ráð að loka á meðan á banninu stendur og leggja áherslu á netverslun í staðinn. Latexhanskar, grímur og handspritt er orðinn staðalbúnaður á hverju heimili, og að einhver fari inn í banka með grímu og hanska þykir bara ekkert athugavert lengur.

Þeir sem greinast með veiruna eða veikjast af henni eru settir í einangrun en aðrir sem hafa umgengist þá sem greinast eru settir í sótthví og voru um 6.800 manns í skráðri sótthví, en margfalt fleiri eru í sjálfskipaðri sótthví, bæði til að vernda eigin heilsu og forðast að bera smit á milli fólks.

Flugferðir milli landa hafa meira og minna lagst af, ferðaþjónustan er hrunin í bili, mörgum hótelum hefur verið lokað, og almennt eru fáir á ferli. Öll íþróttastarfsemi hefur meira og minna lagst af, öll félagastarfssemi og jafnvel jarðafarir eru meira og minna í kyrrþey, þeim frestað eða streymt á netinu. Nýjar venjur hafa skapast, nú skiptir öllu máli að þvo sér vel um hendur eins oft og kostur er, og spritta sig vel á eftir (þá er ekki átt við að farið sé á kogarafyllerí). Allar þessar aðgerðir miða að því að hefta útbreiðslu veirunnar og vernda viðkvæmustu hópana fyrir því að veikjast. Þegar mikið er í húfi, þá eru flestir tilbúnir að leggja ýmislegt á sig til að það markmið náist.

Búið er að fresta eða fella niður ýmsa fasta stórviðburði eins og heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem var frestað um eitt ár, Eurovision hefur verið aflýst, loksins þegar við Íslendingar ætluðum virkilega að vinna keppnina, og búast má við að Ólympíuleikunum verði sömuleiðis frestað, sérstaklega ef að keppnisþjóðirnar fara að draga sig út úr þeim hver af annarri.


Áhrif faraldursins á mitt líf

Þegar fréttir bárust í upphafi af áhrifum Covid19 í Kína þá virkaði þetta á mig eins og hver önnur hamfarafrétt í fjarlægu landi. Ég fann til með fólkinu þarna en ég gerði mér samt engan vegin grein fyrir því hversu mikill skaðvaldur þetta er. Það var eiginlega ekki fyrr en fréttir bárust af því að veiran hefði komið upp á Ítalíu og að Ítalir væru farnir að veikjast í stórum stíl. Þegar skíðaþyrstir íslendingar fóru svo að greinast og voru settir í sótthví þá var alvaran orðin greinileg. Ég fylgdist með öllum blaðamannafundum sem haldnir voru, hef tekið alvarlega þeim tilmælum sem beint er til almennings, er dugleg að þvo mér og spritta og reyni að koma sem minnst við helstu snertifleti með höndunum. 

Í vinnunni hjá mér var strax í upphafi tekið vel á málunum. Neyðarráð var virkjað, birt neyðaráætlun þar sem farið var vel yfir hvaða viðbrögð yrðu við áhættustigum Almannavarna. Þegar ljóst varð að háskólanum yrði lokað voru gerðar ráðstafanir til að lágmarka áhættuna á smiti milli starfsmanna svo að hægt sé að halda innra starfi skólans gangandi. Starfsmönnum er skipt í hópa sem vinna viku í einu, vinnustaðurinn er þrifinn rækilega og sótthreinsaður um helgar áður en næsti hópur tekur við. Í minni deild erum við fimm á tveimur starfsstöðvum, og á minni starfsstöð, þar sem við erum þrjú,  má ekkert okkar vinna í húsinu á sama tíma. Siðustu viku vann ég á starfsstöðinni en ég hélt mig mest uppi á skrifstofu og hafði lítil samskipti við aðra vinnufélaga í húsinu. Næstu tvær vikur verð ég með verkefni heima og verð ég að viðurkenna að þetta óvenjulega fyrirkomulag skapar visst öryggi, Það er tilbreyting að vera ekki á flakki í og úr vinnu, þó að í síðustu viku hafi það bara tekið mig um 15 - 20 mínútur að keyra hvora leið á tíma sem venjulega er háannatími þar sem tekur mig 30 - 45 mínúur að komast milli heimilis og vinnustaðar.

Þetta verður sem sagt vinnustaðan mín næstu tvær vikurnar, ég upplifi dálítið eins og ég sé sest á skólabekkinn aftur, en við þetta borð eyddi ég ansi mörgum klukkustundum á meðan á náminu stóð. 



Í síðustu viku var afmælið mitt og ég var búin að gera ráð fyrir að geta aflýst því eins og Berlínarferðinni, og að ég yrði bara 51 árs í ár í viðbót, en afmælisdagurinn var á sínum stað þrátt fyrir coronaveiruna og varð betri en ég þorði að vona, 

Á síðustu vikum hef ég fylgst með öllum fréttum, öllum fjölmiðlafundum og drukkið í mig upplýsingum sem hægt er að ná í, ég vildi vita sem mest, svo ég gæti bæði gert allt til að forða okkur fjölskyldunni frá smiti, og eins að geta þekkt einkennin ef eitthvert okkar veikist. Það virðist hins vegar ekki vera svo auðvelt um vik það sem einkennin virðast alls konar. Á laugardaginn upplifði ég í fyrsta sinn á þessu tímabili algjört vonleysi og ótti við að ég myndi ekki ráða við aðstæður ef allir á heimilinum veiktust og við það bættist að ég var allt í einu búin að fá yfir mig nóg af þessum skelfilegu fréttum, bæði hversu margir íslendingar væru að greinast og ekki síst þær hryllilegu fréttir sem bárust frá ástandinu á Ítaliu. Fjölskyldan fékk að kenna á mínum verstu hliðum, ég var bæði uppstökk og skapill, nokkuð sem gerist sem betur fer mjög sjaldan, og ég endaði á að koma mér í sjálfskipað fjölmiðlabann og einangrun fram á sunnudag, fór snemma að sofa og vaknaði endurnærð og tilbúin að takast á við tilveruna á nýjan leik. 

Það hefur verið markmið mitt að vera sem minnst á ferli að óþörfu á meðan þetta gengur yfir, ég veit aldrei hvenær ég gæti verið smitberi og vil taka sem minnsta áhættu, sérstaklega þegar ég geri mér betur grein fyrir hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft í för með sér fyrir þá sem veikjast alvarlega. Í dag tók ég mig til og verslaði inn fyrir alveg næstu 3 - 4 vikur, svo að við ættum ekki að þurfa að fara meira út en nauðsynlegt er. Öll félagsstarfssemi sem ég hef tekið þátt í í gegn um árin liggur nú í dvala, saumaklúbbar hafa verið slegnir á frest, við kiwanissystur vorum komnar í frí nokkru áður en samkomubannið skall á og verðum í fríi þar til um hægist, Mér finnst flestir vera að taka mjög skynsamlega á málunum og ég vonast til að heiminum takist að komast fljótt og vel í gegn um þennan faraldur, að atvinnulífið komist á skrið sem fyrst og við komum út úr þessum hamförum reynslunni ríkari og hæfari til að takast á við hvað sem er.   






16 mars 2011

Berlínarferð og fleira

Síðustu dagana hefur litla skottan mín verið lasin, fór fljótlega heim úr skólanum á mánudaginn með hita og kvef, hósta og kvartaði um í maganum, en er öll að hressast, vaknaði hitalaus í morgun, og er ennþá nokkuð hress, sem ég vona að sé forsmekkurinn að því sem verður í dag.

Nýja árið fer vel af stað og svo vel að það er kominn miður mars áður en við er litið. Það hefur ekki mikið markvert gerst á þessum mánuðum, a.m.k. ekki neitt sem á erindi á þessa síðu.

Ég er reyndar búin að skrá mig á námskeið hjá Guðrúnu Erlu á Riverside á Hótel Selfoss og hlakka mikið til að fara. Ég er búin að sjá þau verkefni sem í boði eru fyrri hluta dags, og lofa þau góðu, og er ég búin að velja hvort verkefnið mig langar að taka. Eftir hádegi er svo óvissuverkefni sem verður spennandi að takast á við.


Berlín

Ég ætlaði fyrir löngu að skrifa um ferðina til Berlín í haust, en það hefur dregist "örlítið" að úr því yrði, og ég er hræddust um að það hafi margt gleymst eftir því sem lengra líður frá.

Þann 17. september 2010 rann ferðadagurinn upp. Við áttum að fljúga frá Íslandi um þrjú leytið, en við fengum tilkynningu um að fluginu hefði seinkað um klukkutíma, sem kom sér mjög vel fyrir mig, því fyrir vikið gat ég lokið þeim verkefnum sem ég ætlaði að ljúka við í vinnunni fyrir brottför. Þegar við komum í flugstöðina sáum við að það var rúta á undan okkur, svo að við stoppuðum fyrir framan flugstöðina og drifum okkur út með töskurnar til að vera á undan hópnum úr rútunni að tékka okkur inn, og það hafðist. Eftir inntékkunina fórum við upp í gegn um gegnumlýsinguna og gekk allt alveg ótrúlega vel. Við kíktum á fríhöfnina í rólegheitunum og versluðum sitthvað smálegt til að taka með okkur. Það var gott að setjast niður í rólegheitunum í kaffiteríunni og fá okkur að borða, enda var nægur tími ennþá til stefnu, það varð örlítið meiri seinkun á fluginu. Þegar við höfðum setið dágóða stund í rólegheitunum, stundi bóndinn allt í einu upp: "Veistu hverju við gleymdum?" Ég hafði ekki hugmynd um það, en taldi að það væri þá eitthvað sem við gætum þá bara keypt þegar við værum komin út. "Nei, bíllinn er ennþá í stæðinu fyrir framan flugstöðina". Sem betur fer mundi hann þó eftir þessu áður en við fórum út, og náði að færa hann tímanlega, en við gátum ekki annað en hlegið að þessu eftirá. Flugið gekk vel og úti fundum við fljótlega lestarstöðina og lestina sem átti að flytja okkur á áfangastaðinn, Schönhauser Alle, næstu lestarstöð við íbúðina sem við vorum búin að panta. Við vorum búin að fá þær upplýsingar að lestin sem við tókum myndi fara alla leið frá flugvellinum á áfangastað, en við vorum svo einstaklega heppin að hitta á tímabil þar sem verið var að gera við hluta af járnbrautakerfinu og því þurftum við að skipta um lest í millitíðinni, sem gekk samt mjög vel.

Við vorum með góðar leiðbeiningar að íbúðinni, og það gekk mjög vel að komast þangað, og þar beið okkar starfsmaður frá íbúðaleigunni sem afhenti okkur lykla að íbúðinni. Íbúðin var í sjálfu sér ágæt, staðsett uppi á fjórðu hæð, en í þessu húsi er hver hæð á við eina og hálfa hæð hér heima. Það var því talsvert puð að labba upp alla stigana með farangurinn, þar sem engin lyfta er í húsinu. Við vorum hins vegar mjög ánægð með staðsetninguna á henni, því að hverfið er mjög rólegt en stutt í alla þjónustu, þar á meðal verslunarmiðstöðina Schönhauser Alle arcaden og járnbrautastöðina. Þetta svæði tilheyrir eystri hluta borgarinnar og við sáum það í ferðabók að vesturþjóðverjar hafa verið duglegir að kaupa íbúðir á þessu svæði, og það þykir frekar vinsælt meðal yngri fólksins. Það er samt áberandi fyrir hverfið mikið veggjakrot og húsin sum hver ansi illa á sig komin, og stundum höfðum við á tilfinningunni að við værum í hálfgerðu Harlem hverfi, nema hvað við urðum ekki mikið vör við fólk á ferli í hverfinu. Í íbúðinni höfðum við það samt sterklega á tilfinningunni að við værum dvergar, þar sem efri skáparnir í eldhúsinum voru svo hátt uppi að ég þurfti stól til að ná í allt sem var ofar en í neðstu hillunni, og í svefnherberginu var hilla fyrir ofan rúmið sem var sömuleiðis mjög hátt uppi. Rúmið var hins vegar andstæða, þar sem það var svo lágt niðri, að við vorum komin niður undir gólf þegar við lögðumst í það. Í íbúðinni var síðan hvorki sjónvarp né útvarp, en við bættum úr því með því að kaupa okkur útvarp til að hafa í íbúðinni.

Eftir að við vorum búin að koma okkur aðeins fyrir skruppum við út á aðalgötuna í von um að finna einhverja verslun þar sem við gætum keypt okkur eitthvað að borða og í morgunmatinn fyrir næsta dag. Við enduðum á að fara inn á McDonalds og fá okkur grænmetisvefjur.

Daginn eftir fórum í gönguferðir um hverfið og í verslunarmiðstöðina, keyptum inn helstu nauðsynjar og skoðuðum okkur um. Annars var dagurinn tekinn rólega.

Á sunnudeginum var dagurinn tekinn snemma. Við tókum lestina að Tiergarten, að sautjánda júní stræti. Þar var stór og mikill antik og listaverkamarkaður, á mjög stóru svæði. Við eyddum dágóðum tíma í að skoða hluta markaðarins, en þar sem við ætluðum að gera ýmislegt um daginn, þá fór svo að það var ekkert keypt þótt ýmiss áhugaverður varningur væri þar á boðstólum, allt frá gömlu glingri, borðbúnaði og ýmsum skrautmunum upp í heilu antikskápanna og allt þar á milli. Við fengum okkur göngutúr áfram um 17. júní stræti (sem ekki er skýrt eftir þjóðhátíðardegi Íslendinga)og fórum í almenningsgarðinn Tiergarten, sem er stór og mikill almenningsgarður í miðborginni. Þetta er stór og mikill garður, og greinilega mikið nýttur hjá bæði skokkurum og hjólreiðafólki, og ferðafólki líka. Þessi gata hét áður Charlottenburg Chausee en var endurskýrð eftir atburði sem urðu á götunni þann 17. júní 1953 þegar mikill fjöldi verkamanna lést þegar rauði herinn og lögregla skaut á þá þar sem þeir voru í kröfugöngu. Við skoðuðum minningasvæði um sovéska hermenn en um 80.0000 sovéskir hermenn létust í seinni heimstyrjöldinni í Berlín einni. Við minnismerkið er mikil myndasýning frá þessum tíma og það er hryllileg sjón að sjá alla þá eyðileggingu og mannfall sem var í þessari tilgangslausu heimsstyrjöld.

Við endann á 17. júní götu og við upphaf Unter den linden stendur hið fræga Brandenburgarhlið. Þar var mikið líf og fjöldi fólks sem var að skoða svæðið. Við brugðum okkur á kaffihús við Unter den linden og horfðum á mannlífið útifyrir og hvíldum lúin bein, áður en við héldum svo áfram göngu okkar um götuna. Það er margt að sjá við þessa götu, margar fallegar og sögufrægar byggingar. Við tókum nokkra útúrdúra út frá götunni, upp hliðargötur og kíktum á kirkjur og skoðuðum byggingarnar að utan, enda var farið komið undir kvöld. Á torgi einu var minnismerki um bókasafn sem var staðsett á torginu en brann. Minnismerkið var dálítið merkilegt þar sem það var einn gluggi á torginu og þegar við horfðum niður um gluggan, þá sáust tómar bókahillur.

Þar sem við vorum orðin frekar lúin í fótunum þá tókum við strætó niður á Alexanderplatz þar sem við stefndum á að fá okkur að borða. Þar var stórt tjald og barst þaðan mikil tónlist. Þarna var haldin oktoberfest í Berlin, og við létum okkur ekki vanta. Það var þýsk hljómsveit sem spilaði líflega tónlist og var mjög gaman að upplifa þetta. Á hátíðinni var einn dálítið sérstakur náungi sem labbaði um allt með krakkalúður og spilaði með hljómsveitinni og skemmti sér greinilega konunglega, en það heyrðist ekkert í lúðrinum. Það voru frekar þreyttir ferðalangar sem komu upp í íbúð um miðnætti.

Næsti dagur var tekinn rólega, farið í verslunarmiðstöðina, farið í göngutúra um hverfið og síðan elduðum við heima um kvöldið.

Röðin á því sem við gerðum næstu daga er ekki alveg á hreinu. Einn daginn tókum við strætó niður á Alexander platz, og gengum um hverfið. Við skoðuðum dómkirkjuna í Berlín sem er stórglæsileg kirkja og með mikla sögu. Við kíktum á Neptúnusarbrunninn, Mariannekirkjuna við hliðina, síðan gengum við um hverfin í kring, meðfram ánni og skoðuðum safnaeyjuna. Þar völdum við að skoða Pergamon safn, sem tekur fyrir byggingarlist í gegn um aldirnar og er aðaláhersla lögð á lönd í austurlöndum fjær og er alveg stórmerkilegt safn og alveg þess virði að skoða. Við vorum að velta fyrir okkur að skoða líka þýska sögusafnið en sáum að við hefðum ekki nægan tíma til að skoða það svo vel væri, þannig að það átti að bíða betri tíma sem verður vonandi í einhverri ferð þangað síðar. Fyrir utan sögusafnið sáum við að búið var að leggja tveimur traböntum og síðan bættust við hver trabantinn á fætur öðrum. Þetta var trabantaleiga þar sem hægt var að leigja trabanta til ferðast á. Við létum okkur nægja að horfa á bílana og fólkið sem var að skoða þá. Í nágrenninu fórum við inn í mjög merkilega byggingu, minnismerki um fórnarlömb stríða. Þetta var algjörlega tóm bygging fyrir utan eitt búddalíkneski í miðju hennar. Við kíktum líka aðeins í Gallery Kaufhof á Alexanderplatz og CA, áður en við tókum lestina heim á leið.

Einn daginn notuðum við til að fara og kíkja á Charlottenburgarhöll sem er stærsta höll Berlínar. Elsti hluti hennar var byggður á 17. öld af Friðriki III hertoga Brandenburgar og tileinkuð konu hans Sophie Charlotte. Þetta er stór og falleg höll, með glæsilegum herbergjum, hverju öðru skreyttu fallegum málverkum og húsgögnum frá þeim tíma er höllin var byggð. Reyndar skemmdist höllin talsvert í heimssyrjöldunum tveimur og því voru sum húsgögnin fengin annars staðar frá. Í höllinni er mjög falleg kapella og stórglæsilegur dans- og veislusalur. Mér fannst mjög gaman að skoða þennan hluta hallarinnar. Við höllina var síðan byggður annar hluti síðar, og er kallaður nýji vængurinn, og var hann allt annars útlits, og sáum við eftir að hafa eytt tíma og peningum í að skoða þann hluta, þar sem hann var mjög lítið merkilegur. Það voru helst málverkin gömlu sem var gaman að skoða.

Við enduðum daginn á að fara á Indverskt veitingahús ekki langt frá íbúðinni okkar og stóðst það fyllilega væntingar.

Einn daginn fórum við með lestinni á nýjar slóðir, við stefndum á að fara að skoða Kaisers Wilhelms minningarkirkjunni en hún var að mestu leyti sprengd niður í seinni heimsstyrjöldinni en það sem eftir var af henni var breytt í safn til minningar um alla þá sem létust í styrjöldinni. Eitthvað hafði frúin misskilið leiðakort lestanna og endaði á að við fórum út á kolvitlausum enda á Kufurstendamm, langt frá kirkjunni, og við tók gangan mikla á leiðinni að henni. Alltaf héldum við að nú færi að koma að henni, en leiðin reyndist frekar löng þegar til kom. Við komumst samt á leiðarenda að lokum. Við skoðuðum minningarkirkjuna og einnig nýju kirkjuna sem byggð var við hliðina á þessari gömlu. Ég get nú ekki sagt að þessi nýja kirkja hafi vakið mikla hrifningu hjá okkur. Síðan settumst við á kaffihús við hliðina á kirkjunni og nutum mannlífsins. Gengum síðan um allt hverfið og skoðuðum okkur um.

Daginn áður en við flugum heim hafði ég samband við íbúðaleiguna til að athuga hvort að við gætum fengið að hafa íbúðina aðeins lengur daginn eftir svo að við gætum geymt farangurinn þar og tekið aðeins daginn rólega áður en við færum út á flugvöll. Sá sem ég talaði við bað mig bara um að láta sig vita hálftíma áður en við færum. Við tókum síðan morguninn rólega, kláruðum að pakka niður, og þegar við vorum langt komin með að taka okkur saman, þá heyrum við að lykli er stungið í skránna og kona kemur inn. Hún var fljót að stökkva út aftur og skella á eftir sér, en hringdi síðan dyrabjöllunni. Hún sagðist vera frá íbúðaleigunni og ætti að þrífa því að það væri að koma fólk í íbúðina klukkan fjögur. Ég sagði henni þá að við hefðum hringt í íbúðaleiguna og okkur sagt að við gætum verið með íbúðina lengur. Einhver misskilningur hefur verið þarna á ferðinni, en við drifum okkur í að klára að taka saman og konan byrjaði að þrífa svefnherbergið og baðherbergið á meðan að við kláruðu. Allt bjargaðist þetta og við tókum lestina niður á Alexanderplatz þar sem við fundum hólf til að setja töskurnar okkar í. Þar sem við þekktum þetta kerfi ekki alveg, þá sáum við eitt opið hólf. Bóndinn nefndi að það væri enginn lykill í hólfinu og ég tald að líklegast dytti hann niður þegar búið væri að setja peninginn í. Ekki var það nú alveg heldur sáum við það á síðasta hólfinu sem var fyrir ofan okkar að þar stóð lykill út, en á meðan við höfðum verið að setja farangurinn í lyklalausa hólfið þá kom fólk sem var að setja farangurinn sinn í síðasta lausa hólfið fyrir ofan okkur. Þegar þau sáu í hvaða vandræðum við vorum, þá tóku þau farangurinn sinn aftur til baka og sögðu okkur að taka það, þau gætu notað minni hólf sem voru laus innar í ganginum. Þetta blessaðist því allt saman. Við settumst síðan út á torg, nutum veðurblíðunnar en þennan dag var sannkallað sumarveður með miklum hlýindum og sól. Á torginu er mikil myndasýning um aðskilnað austurs og vesturhluta borgarinnar og fall múrsins og gáfum við okkur góðan tíma til að skoða þessa sýningu. Það er í rauninni ótrúlega stutt síðan múrinn féll, en breytingarnar fyrir austur Þjóðverja urðu alveg gífurlegar. Miðað við myndirnar að dæma, hefði mátt ætla að fall múrsins hafir verið á milli 1960 og 1970 því að klæðnaður og bílaeign austantjaldsbúa var svo langt á eftir samtímanum. Seinnipart dagsins sóttum við farangurinn og tókum síðan lestina út á flugvöll. Eftir á að hyggja sáum við að það var mjög gott að við skyldum ekki hafa íbúðina áfram því að það hefði verið allt of mikið vesen að fara aftur til baka til að sækja farangurinn.

Ég get ekki sagt að Berlín sé falleg borg, á köflum fannst mér hún frekar í niðurníðslu og sóðaleg. En hins vegar er saga þessarar borgar alveg ótrúleg og mikil, og mig langar til að koma þangað aftur til að skoða mig betur um þarna, sjá fleiri söfn og skoða fleiri byggingar.

10 janúar 2011

Nýtt ár skollið á

Gleðilegt og farsælt ár og takk fyrir það gamla.

Það varð heldur lengra á milli færslna en ætlað var, og ég ætla ekki að lofa neinu um að bæta mig á þessu ári. Þessi áramót voru óvenjuleg hvað varðar áramótaheit, gaf þessu gamla, lúna og árlega áramótaheiti frí, hef hvort sem er ekkert verið að standa við það, þrátt fyrir góðan vilja í ársbyrjun. Ég þarf væntanlega ekki að tilgreina hvert það áramótaheit er, þeir sem þekkja mig vita um hvað málið snýst. Á þessu ári ætla ég að vera feit og falleg, ætti a.m.k. að geta staðið við annað af þeim, miðað við reynslu fyrri ára.

Jólin og áramótin gengu vel fyrir sig, en jólafríið leið allt of hratt, enda var heldur lítið um frí. Við eyddum áramótunum með mági mínum og fjölskyldu hans og tengdaforeldrunum, ásamt fleira fólki.

26 október 2010

Vetur konungur kominn í hlaðið

Áður en við er litið er kominn vetur með tilheyrandi kulda og tekur smá tíma að aðlaga sig að þessari breytingu.

Í október mánuði hefur verið ýmislegt brallað. Helgina 8. - 10. október fór ég á saumahelgi á Hótel Örk og var þetta mjög skemmtileg helgi, þar sem um 60 konur fengust við saumaskap og spjall. Ekki skemmdi heldur fyrir að gista á svona góðu hóteli og fá alla þjónustu án þess að hafa nokkuð fyrir því einu sinni, og geta bara setið og saumað og saumað, og saumað meira. Það voru tvö verkefni í boði, snnars vegar Pacific Rim og hins vegar Outback. Ég var hrifnari af Pacific Rim verkefninu, þó að mér litist nú ekki meira en svo á að fara að vinna svona verkefni sem ég hélt að væri mjög flókið, en það er léttara en það lítur út fyrir að vera, og mjög gaman að fást við. Ég komst vel af stað með verkefnið, en á eftir hellings saumaskap ennþá.

Ég er alveg dottin í bútasauminn þessa dagana og er komin vel á veg með að klára gamlar syndir sem ýmist þurfti að lagfæra eða að klára, en ég ákvað að klára þetta gamla áður en ég tæki við að ljúka við síðasta verkefni. Það lítur líka út fyrir að mér sé að takast að smita svilkonu mína með bútapestinni líka, og þá erum við orðnar þrjár í fjölskyldunni sem höfum áhuga á bútasaumi.

Fyrstu helgina í október gerðumst við tvíburahálfsysturnar hagsýnar húsmæður og tókum slátur. Þetta hefur verið góð hefð hjá okkur síðustu árin og hefur gengið vel. Í þetta sinn tók vinnan þó miklu lengri tíma en áður, þar sem að nú fylgdu með alvöru vambir sem þurfti að sníða og sauma, og var það eitthvað sem við vorum ekkert sérstaklega klárar í. Allt gekk þó að lokum og vorum við búnar að öllu um tvö um nóttina.

Saumaklúbburinn "þrír fiskar á þurru landi" er kominn á fullt í jólakortagerð, eða a.m.k. 66,67% af klúbbnum, og verður gott þegar öll jólakortin verða tilbúin og hægt að skrifa á þau. Á hverju ári ætla ég að vera tímanlega í þessu, en það endar ávallt með því að jólakortaskrifin eru gerð á síðustu stundu korter fyrir jól. Það er fróðlegt að sjá hvort það hefst í þetta skipti.

29 september 2010

Komin heim, - og pistill um það þegar konur eldast .......

Þá erum við komin heim frá Berlín, áttum mjög góða ferð, og set ég væntanlega ágrip af ferðasögunni inn þegar tími gefst.

En ég fékk sendan þennan pistil um það hvaða áhrif það hefur á konur að eldast - á léttum nótum - og finnst það eiga vel við þar sem ég finn fyrir því að er farin að eldast, og þá er gott að eiga tillitssaman og góðan mann .......

Þegar konur eldast.
Grein eftir Hjört Jónsson

Það er mikilvægt fyrir karlmenn að muna, að eftir því sem konur eldast verður erfiðara fyrir þær að halda sömu gæðum í húsverkunum og þegar þær voru ungar. Þegar þú tekur eftir þessu, reyndu ekki að æpa á hana. Sumar konur eru ofurviðkvæmar, og það er ekkert verra til en ofurviðkvæm kona.

Ég heiti Hjörtur. Ég ætla að segja ykkur hvernig ég tókst á við þetta ástand varðandi konuna mína hana Hrönn. Þegar ég settist í helgan stein fyrir nokkrum árum, þurfti Hrönn auðvitað að fá sér heildagsvinnu meðfram hlutastarfinu, bæði til þess að auka tekjur heimilisins og halda sparnaði okkar hjóna gangandi. Fljótlega eftir að hún fór að vinna tók ég þó eftir að aldurinn fór að sjást á henni.
Ég kem venjulega heim úr golfi á sama tíma og hún kemur heim úr vinnunni.
Þó hún viti hvað ég er svangur, þá þarf hún næstum alltaf að hvíla sig í hálftíma áður en hún fer að elda matinn. Ég æpi þó ekki á hana. Í staðinn segi ég henni að taka þann tíma sem hún þarf og vekja mig bara þegar maturinn er kominn á borðið. Ég borða venjulega hádegismat í "Heiðursmannagrillinu" í klúbbhúsinu þannig að það er auðvitað ekkert á dagskránni að fara út að borða.
Áður fyrr var Hrönn vön að vaska upp um leið og við vorum búin að borða. Nú er hinsvegar ekkert óvenjulegt að það bíði jafnvel í nokkra tíma. Ég geri það sem ég get með því að minna hana á það á nærgætinn hátt að diskarnir þvoi sig ekki sjálfir. Ég veit að hún kann að meta þetta, þar sem það virðist hvetja hana til að klára uppvaskið áður en hún fer að sofa.
Annað einkenni öldrunar er kvörtunaráráttan held ég. Til dæmis heldur hún því fram að það sé erfitt að finna tíma til að greiða reikningana í matartímanum. En strákar, við lofuðum að standa með þeim í blíðu og stríðu, svo ég brosi bara og býð fram hvatningu. Ég segi henni bara að dreifa þessu á tvo til þrjá daga. Þannig þarf hún ekki að flýta sér eins mikið. Ég minni hana líka á að þótt hún missi af matartímanum af og til sé það allt í lagi ( þið vitið hvað ég meina ). Mér finnst reyndar nærgætni einn af mínum betri kostum.Þegar hún vinnur einfaldari verkefni, virðist hún halda að hún þurfi fleiri hvíldarstundir. Hún varð til dæmis að taka pásu þegar hún var einungis hálfnuð með að slá blettinn. Ég reyni að vera ekki með uppistand. Ég er sanngjarn maður. Ég segi henni að útbúa sér stórt glas af nýpressuðum köldum appelsínusafa og setjast í smástund. Og þar sem hún er að gera þetta, bið ég hana að blanda einn fyrir mig í leiðinni.
Ég veit að væntanlega lít ég út eins og dýrlingur vegna þess hvernig ég styð hana Hrönn mína. Það er ekkert auðvelt að sýna svona mikla tillitssemi. Mörgum karlmönnum finnst það erfitt. Og mörgum finnst það alveg ómögulegt ! Það veit enginn betur en ég hversu pirrandi konur verða þegar þær eldast.
En strákar, ef þið hafið lært það af þessarri grein að vera nærgætnari og minna gagnrýnir á konurnar ykkar sem eru að eldast lít ég svo á að þetta hafi verið þess virði að setja á blað. Við megum ekki gleyma því að við fæddumst á þessa jörð til hjálpa hver öðrum.


Kveðja,
Hjörtur Jónsson

Athugasemd ritstjóra:
Hjörtur Jónsson lést skyndilega þann 27. maí sl. af blæðingum í endaþarmi. Samkvæmt lögregluskýrslu fannst Calloway extra löng 50 tommu Big Bertha golfkylfa á kafi í rassgatinu á honum, þannig að aðeins stóðu tíu cm af handfanginu út, og við hliðina var sleggja. Hrönn konan hans var handtekin og ákærð fyrir morðið. Kviðdómurinn sem eingöngu var skipaður konum var 15 mínútur að komast að niðurstöðu sem varþessi: Við föllumst á það sem fram kemur í vörn Hrannar að Hjörtur hafi einhvern veginn, án þess að gera sér grein fyrir því, sest ofan á eigin golfkylfu.



14 september 2010

September hálfnaður

Þá er september mánuður brátt hálfnaður og ýmislegt sem hefur á daga drifið eins og venjulega.

Litla skólastelpan er hæstánægð í skólanum, reyndar eru einhverjir hrekkjalómar sem eru að gera henni lífið leitt, en mér heyrist kennarinn hennar ætli að taka á þeim málum. Hún er byrjuð að lesa pínulítið, tvö til þrjú atkvæði í einu, og hefur mikinn áhuga á að læra meira. Einnig er hún byrjuð að skrifa stafina á fullu, og dundar sér við það á daginn eftir skóla.

Síðasta helgi var annasöm. Á föstudaginn fór ég á sýninguna "bút fyrir bút" í Perlunni, en þar heldur íslenska bútasaumsfélagið sýningu á flottum bútasaumsverkum í tilefni 10 ára afmæli félagsins. Þessi sýning ollin engum vonbrigðum, fullt af mjög fallegum verkefnum, og ómældar vinnustundir sem liggja að baki þessum verkefnum. Það var mikill fjöldi fólks sem var á sýningunni og þurfti stundum að sæta lagi til að komast að þeim teppum sem ég vildi skoða nánar, en allt gekk þetta á endanum. Þessi sýning kveikti ennþá meira í mér að fara að halda áfram með eitthvað af þeim verkefnum sem ég er með í gangi, svo að ég geti byrjað á nýjum.

Á laugardeginum fórum við fjölskyldan austur fyrir fjall, en í annað sinn var höggvið skarð í gamla vinnuhópinn af skrifstofu KÁ, þar sem ég var að vinna í öllum sumarfríum og milli skóla frá því ég var 16 ára til 24 ára. Þetta var góður hópur sem ég var að vinna með og hefur kjarninn haldið sambandi öðru hvoru í gegn um árin og hittumst við síðast næstum öll í október 2008. Í þetta sinn kvöddum við konu sem vann með mér allan tímann, hún hefði orðið 88 ára í október, og var svo lánsöm að halda heilsu alveg til 86 ár aldurs, en í fyrra fékk hún heilablóðfall sem sneri allri hennar tilveru á hvolf. Í maí vorum við búin að sjá á eftir skrifstofustjóranum okkar, einnig vegna heilablóðfalls. Það verða því viðbrigði þegar við hittumst næst þegar farið er að vanta í hópinn. Eftir jarðaförina var deginum eytt hjá foreldrum mínum í góðu yfirlæti eins og vanalega.

Svo er spennandi tími framundan hjá mér. Bóndinn fékk algjöran utanlandsfíling þegar hann sá tilboð á flugi frá Iceland express um daginn, og stakk upp á því að við myndum bregða undir okkur faraldsfætinum. Valið stóð á milli London og Berlínar, enda höfum við komið svo oft til Kaupmannahafnar og Varsjá heillaði hvorugt okkar, þannig að fyrir valinu varð Berlín, enda eini staðurinn sem við höfum ekki komið til áður. Við erum búin að gera lauslega áætlun um hvaða staði við viljum sjá, og ég held að aðal hættan sé sú að við komumst ekki yfir að skoða allt, verðum a.m.k. ekki í vandræðum með að finna okkur eitthvað að gera. Við erum líka búin að finna okkur íbúð sem er ágætlega staðsett, í útjaðri miðbæjarins, stutt í lestarstöð þar sem við erum í beinum lestarsamgöngum við flugvöllinn. Litla daman verður í góðum höndum hjá ömmum sínum og öfum, svo að hún missir lítið úr skólanum.

Í gærkvöldi skilaði ég væntanlega í síðasta sinn verkefni sem ég hef haft fyrir höndum síðustu ár, en það er að endurskoða reikninga Drengjakórs Reykjavíkur, enda er vinkona mín að skila af sér gjaldkerastöðunni þar sem söngfuglinn hennar er hættur í kórnum. Við tvíburahálfsysturnar áttum góða stund saman í gærkvöldi yfir tölunum og að sjálfsögðu stóðst reikningurinn skoðun.